Samþykktir

Samþykktir fyrir IHM

SAMÞYKKTIR FYRIR INNHEIMTUMIÐSTÖÐ GJALDA SKV. 11. GR. HÖFUNDALAGA

1. Nafn og aðsetur

1.1. Samtökin heita Innheimtumiðstöð gjalda skv. 11. gr. höfundalaga, skammstafað IHM. Heimili miðstöðvarinnar og varnarþing er í Reykjavík.

2. Tilgangur og viðfangsefni

2.1. Innheimtumiðstöðin er hagsmunasamtök höfunda, listflytjenda og framleiðenda til réttargæslu í samræmi við 3. - 6. mgr. 11. gr. höfundalaga. Innheimtumiðstöðin hefur það ekki að markmiði að safna eignum í eigin þágu.

2.2. Innheimtumiðstöðin hefur eftirfarandi viðfangsefni í samræmi við tilgang sinn:
1. Að safna upplýsingum, annast innheimtu gjalda skv. 3. - 6. mgr. 11. gr. höfundalaga og skipta þeim milli aðildarfélaganna. 2. Að annast samskipti við hliðstæð samtök erlendra rétthafa. 3. Að samhæfa kröfur aðildarfélaganna og annast samningaviðræður og gera samninga á þessu sviði.

3. Aðild

3.1. Aðilar að samtökum þessum eru: STEF, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, SFH, Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda, Rithöfundasamband Íslands, Blaðamannafélag Íslands, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna, Samtök kvikmyndaleikstjóra, Félag leikstjóra á Íslandi, Hagþenkir, félag höfunda fræðirita og kennslugagna og Myndstef. Önnur félög en þau, sem að framan eru greind, geta sótt um aukaaðild að samtökunum enda teljast þau hafa verulegra hagsmuna að gæta á þessu sviði.

4. Skipulag

4.1. Stjórn samtakanna skipa sjö menn, tveir tilnefndir af STEFi, þrír af SFH, einn af Rithöfundasambandi Íslands, einn af Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, einn af Samtökum kvikmyndaleikstjóra og einn af Myndstefi. Varamenn skulu vera jafnmargir aðalmönnum og tilnefndir á sama hátt. Stjórnin velur sér formann og varaformann. Tilnefning stjórnarmanna gildir í tvö ár.

4.2. Stjórnin stýrir starfsemi samtakanna. Fundi skal halda með hæfilegum fyrirvara þegar formaður ákveður eða einn stjórnarmanna óskar þess. Fundargerðir stjórnarfunda skulu sendar til stjórnarmanna og einstakra aðildarsamtaka.

4.3. Hver stjórnarmaður hefur eitt atkvæði. Stjórnarfundur er lögmætur þegar formaður og fjórir meðstjórnendur sækja fund sjálfir eða varamenn þeirra.

4.4. Fulltrúaráð samtakanna skipa fulltrúar sem tilnefndir skulu til tveggja ára af aðildarsamtökunum sem hér segir: Tveir fulltrúar og tveir til vara, tilnefndir af STEFi. Fjórir fulltrúar og tveir til vara, tilnefndir af SFH. Tveir fulltrúar og einn til vara, tilnefndir af Rithöfundasambandi Íslands. Einn fulltrúi og einn til vara, tilnefndir af öðrum aðildarsamtökum, hverjum um sig.

Stjórnarmenn samtakanna eiga og sæti í fulltrúaráði samtakanna og hafa þar atkvæðisrétt, málfrelsi og tillögurétt.

Samtök, sem öðlast hafa aukaaðild að samtökunum, hafa og rétt til að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu á fundum fulltrúaráðsins án atkvæðisréttar.

Ef skipting á tekjum samkvæmt grein 5.2. breytist skal endurskoða fjölda fulltrúa frá einstökum aðildarsamtökum í stjórn og fulltrúaráði.

4.5. Aðalviðfangsefni fulltrúaráðsins eru þessi. 1. Að ákveða í aðalatriðum störf og stefnu Innheimtumiðstöðvarinnar. 2. Að hafa eftirlit með starfsemi hennar. 3. Að taka afstöðu til aðildar nýrra samtaka.

Ákvörðun skv. 4.5.1 og 4.5.3 verður því aðeins tekin í fulltrúaráðinu að 3/4 greiði því atkvæði sitt.

4.6. Aðalfund fulltrúaráðsins skal halda í júnímánuði ár hvert. Skal til hans boðað með ábyrgðarbréfum með tveggja vikna fyrirvara. Aðra fundi í fulltrúaráðinu skal boða á sama hátt.

Á aðalfundi skal taka fyrir þessi mál: 1. Skýrslu stjórnar. 2. Afgreiðslu endurskoðaðra reikninga. 3. Kosningu formanns fulltrúaráðsins. 4. Skýrt frá tilnefningu stjórnar og varamanna sbr. 4.1. 5. Kosningu tveggja endurskoðenda. 6. Önnur mál.

Fulltrúaráðið kemur annars saman þegar stjórnin, endurskoðendur eða a.m.k. eitt aðildarsamband óskar þess. Geta skal dagskrár í fundarboði. Tillögur til aðalfundar skulu berast stjórn eigi síðar en 15. maí ár hvert.

4.7. Fundinum stjórnar formaður fulltrúaráðsins. Ekki verður ályktað um mál, sem ekki er getið í fundarboði. Ákvarðanir skulu teknar með meirihluta atkvæða, sé annað ekki sérstaklega ákveðið.

5. Meðferð fjármála

5.1. Til að mæta óvæntum kröfum aðila, sem standa utan IHM, og kostnaði IHM, öðrum en rekstrarkostnaði, skal árlega leggja í varasjóð 5% af vergum. Þegar höfuðstóll sjóðsins er orðinn kr. 2.500.000,- miðað við núverandi verðlag, falla greiðslur til hans niður. Sé gengið á höfuðstólinn skulu greiðslur til hans hefjast að nýju skv. sömu reglum.

5.2. Eftir að greitt hefur verið til varasjóðs skv. 5.1. og fé lagt til hliðar til greiðslu rekstrarkostnaðar skal skipta rekstrarafgangi samtakanna, að frádregnu 15% framlagi í Menningarsjóð, á milli aðildarsamtakanna, s.s. hér segir:

1. Tekjur af auðum hljóðböndum og hljóðbandatækjum skal skipta í þessum hlutföllum: STEF 39%, SFH 54%, og Rithöfundasamband Íslands 7%.

2. Tekjum af myndböndum og myndbandstækjum skal skipta á milli aðildarsamtaka í þessum hlutföllum: STEF 13%, Rithöfundasamband Íslands og Hagþenkir samtals 16%, Samtök kvikmyndaleikstjóra 12%, Myndstef 3,5%, þar af skal hlutdeild leikmynda- og búningahöfunda vera 2/3 en hlutdeild annarra myndhöfunda 1/3, Blaðamannafélag Íslands 2,5%, Félag kvikmyndagerðarmanna 4,5%, Félag leikstjóra á Íslandi 2,5%, Félag íslenskra hljómlistarmanna 10%, Félag íslenskra leikara 13%, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda 15% og Samband hljómplötuframleiðenda 8%.

Endurskoða skal framangreinda skiptingu á milli aðildarsamtakanna ef eitthvert þeirra krefst þess. Skal krafa þess efnis vera gerð með eins árs fyrirvara, miðað við áramót. Náist ekki samkomulag um breytingu á skiptingunni skal skera úr ágreiningnum skv. 6.1 – 6.4.

Aðildarsamtök skulu úthluta einstaklingsbundið til rétthafa þar sem því verður við komið, m.a. í formi styrkja. Að öðru leyti skulu hver samtök ráðstafa sínum hluta samkvæmt reglum sem í gildi eru í hverjum þeirra fyrir sig.

5.3. Stjórn IHM fer jafnframt með stjórn menningarsjóðs ásamt formanni, skipuðum af menntamálaráðuneytinu, að fengnum tillögum höfundaréttarnefndar. Sjóðstjórnin tekur ákvarðanir um úthlutanir úr sjóðnum.

6. Úrlausn ágreinings um skiptingu tekna og meðferð fjár

6.1. Ef ekki næst samkomulag um skiptingu tekna milli aðildarsamtaka eða ágreiningur ríkir milli þeirra um meðferð fjár IHM að öðru leyti skal sérstökum sáttasemjara falið að leita sátta milli aðildarsamtakanna. Skal hann skipaður af stjórn IHM hverju sinni og vera óháður aðildar-samtökunum. Ef ekki nást sættir innan þriggja mánaða frá því að sáttasemjarinn tók til starfa skal hann leggja fram málamiðlunartillögu um skiptingu tekna eða meðferð fjár. Ef 2/3 hlutar aðildarsamtakanna samþykkja tillöguna telst hún skuld¬bindandi fyrir öll samtökin, sbr. þó 6.3. Að öðrum kosti skal vísa ágreiningnum til úrlausnar gerðardóms skv. 6.2. Kostnaður af störfum sáttasemjara skal greiddur af IHM. 6.2. Gerðardómur leysir endanlega úr ágreiningi um skiptingu tekna milli aðildarsamtaka og um meðferð fjár IHM að öðru leyti. Skal gerðar-dómurinn skipaður þremur dómendum. Ef aðildarsamtökin koma sér ekki saman um gerðarmenn skulu þeir skipaðir af dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur. Að öðru leyti gilda ákvæði laga um samningsbundna gerðar-dóma um gerðardóminn og málsmeðferð fyrir honum. Kostnaður af gerðardóminum skal greiddur af IHM, sbr. þó 6.3. 6.3. Nú sætta einhver aðildarsamtök sig ekki við málamiðlunartillögu sátta¬-semjara, þótt hún hafi verið samþykkt skv. 6.1., og geta þau þá vísað ágreiningnum til úrlausnar gerðardóms skv. 6.2. Víki gerðardómurinn frá tillögunni, þannig að úrskurður hans verði hagstæðari þessum aðildar-samtökum, skal kostnaður af gerðar¬dóminum greiddur af [öðrum aðildarsamtökum] IHM. Að öðrum kosti skulu þau aðildarsamtök, sem vísuðu ágreiningnum til gerðardóms, bera kostnað af honum. 6.4. Eftir að endanleg niðurstaða um skiptingu tekna milli aðildarfélaga liggur fyrir samkvæmt framansögðu getur hvert aðildarsamtakanna sem er krafist endurskoðunar á henni. Skal krafa þess efnis vera gerð með eins árs fyrirvara, miðað við áramót.

7. Breytingar á samþykktum. Félagsslit

7.1. Til breytinga á samþykktum þarf meirihluta, 3/4 hluta atkvæða á fulltrúaráðsfundi, þar sem að minnsta kosti 4/5 hlutar aðildarfélaganna eru mættir.

7.2. Fulltrúaráð skal slíta IHM ef þess er krafist af 3/4 hlutum aðildarfélaganna. Við félagsslit ákveður menntamálaráðuneytið hvernig ráðstafa skal eignum IHM til hagsbóta fyrir rétthafa.