Spurt og svarað

1) Hvað er IHM? IHM ber fullu nafni heitið Innheimtumiðstöð rétthafa. Aðaltilgangur IHM er að annast innheimtu gjalda af tækjum,diskum plötum eða öðrum hlutum til hliðrænnar eða stafrænnar upptöku. Nánar er þetta tilgreint í reglugerð nr. 125/2001 og lögum nr. 60/2000.

2) Hverjir eru aðilar að IHM? Aðilar að IHM eru STEF (Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar), SFH(Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda), RSÍ (Rithöfundasamband Íslands), Hagþenkir, BÍ (Blaðamannafélag Íslands) SKL (Samtök kvikmyndaleikstjóra) F-SÍK (Framleiðendafélagið-Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda) FÍL(Félag íslenskra leikara) FK (Félag kvikmyndagerðamanna), Myndstef og Félag leikstjóra á Íslandi.

3) Hve hátt er IHM gjaldið og af hverju greiðist? Af diskum,plötum eða öðrum hlutum til hliðrænnar eða stafrænnar upptöku hljóðs greiðist að lágmarki kr 17, en kr 50 af sömu hlutum til upptöku á mynd ásamt hljóði. Þetta gjald hækkar þó eftir upptökugetu hlutarins í mínútum talið. Af tækjum til hliðrænnar eða stafrænnar upptöku greiðist 4% af innflutningsverði hvers tækis,en það hlutfall lækkar sé upptökutækið innbyggt í önnur tæki. T.d. greiðist 1% af innbyggðum geislabrennurum/geisladiskabrennurum og 1% af útvarpstækjum með plötu- og /eða geilsaspilara og segulbandstæki. Sja nánar um þetta í reglugerð 125/2001.

4) Greiðast allar innheimtar tekjur til aðildarfélaga? 85% af innheimtu tekjum að frádregnum kostnaði greiðist til aðildarfélaga þar sem 15% af rekstrarafgangi er lagt í sérstakan sjóð, Menningarsjóð IHM. Hlutverk sjóðsins er að veita framlög til útgáfu á íslenskum hugverkum og listflutningi. Leggur sjóðurinn einkum áherslu á slíka útgáfu með stafrænni tækni, margmiðlunarverkefna, sem samanstanda af íslenskum hugverkum og listflutningi úr ýmsum listgreinum til dreifingar á Internetinu.

5) Hver eru rökin fyrir IHM gjaldinu? Tilgangur með innheimtu gjaldsins er m.a. sá að bæta réttthöfum þ.e. höfundum, flytjendum og framleiðendum upp þá tekjuskerðingu sem þeir verða fyrir þegar eintak af verkum þeirra er fjölfaldað í heimahúsi í stað þess að kaupa það á sölustað með tilheyrandi hlutdeild rétthafa í verði hlutarins. Tilgangurinn er einnig að bæta fyrir þá auknu notkun sem með þessu móti verður á verkum þeirra

6) Á hverju er gjaldtaka af geisladiskum byggð? Af hverju fá ekki allir sem taka upp efni á diskana greitt frá IHM? Þessi gjaldtaka er byggð á 3. - 6. mgr. 11. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sbr. 2. gr. laga nr. 60/2000.

Í 3. mgr. þeirrar greinar segir m.a. að höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, t.d. hljómplötu eða myndbandi, eigi rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku á verkum þeirra "til einkanota" á bönd, diska o.s.frv. "sem taka má upp á hljóð og/eða myndir" með hliðrænum ("analog") eða stafrænum ("digital") hætti. Í 2. tölul. 4. mgr. sömu greinar er kveðið á um að gjald af böndum, diskum o.s.frv. til upptöku hljóðs eingöngu skuli vera kr. 35, miðað við allt að 180 mínútna flutningstíma, sbr. 4. tölul. 4. mgr.

Skv. 5. mgr. greinarinnar setur menntamálaráðherra nánari reglur um gjaldtökuna. Þar segir jafnframt orðrétt: "Lækka má fjárhæðir, sem greindar eru í 4. mgr., af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum ef ætla má að einungis hluti þeirra sé ætlaður til upptöku skv. 3. mgr."

Þegar ráðherra setti reglugerð nr. 125/2001, sbr. reglugerð nr. 186/2001, um innheimtu umræddra höfundaréttargjalda ákvað hann að notfæra sér heimildina til þess að lækka gjaldið af tölvudiskum úr kr. 35 í kr. 17, vegna þess að augljóst væri að einungis hluti tölvudiskanna væri notaður til þess að taka upp verndað efni, svo sem tónlist, og illframkvæmanlegt að ganga úr skugga um það í hvert eitt sinn hvort tiltekinn diskur hefði verið notaður til slíkrar upptöku eða ekki.

Samkvæmt framansögðu ber því að greiða þetta lægra gjald af tölvudiski, sem þú fest eru kaup á, fyrir þann möguleika sem aðilum býðst til þess að taka upp á hann efni, sem verndar nýtur samkvæmt höfundalögum, sbr. orðalagið "sem taka má upp á hljóð og/eða myndir" í 3. mgr. 11. gr. höfundalaga. Vegna þess að gjaldið hefur verið lækkað um helming af ástæðum, sem að framan greinir, kemur heldur ekki til álita að endurgreiða gjaldið, jafnvel þótt sá kostur sé ekki notfærður.

Umrædd höfundaréttargjöld eru hugsuð sem uppbætur fyrir höfunda og aðra rétthafa að tónlist, kvikmyndum og öðru slíku efni vegna upptöku á verkum þeirra sem á sér stað í stórum stíl. Þótt þessi upptaka sé heimil "til einkanota" þykir sanngjarnt að rétthafarnir fái einhverjar greiðslur í sinn hlut, sem þó nema ekki nema broti af því, sem þeir myndu fá, ef plötur, diskar eða bönd með efni þeirra væru keypt úti í búð eða leigð á myndbandaleigum. Erfitt er að koma þessari gjaldtöku við með öðrum hætti, en þess má geta að hliðstæð gjaldtaka tíðkast í flestum ríkjum Vestur-Evrópu og í nokkrum ríkjum utan álfunnar.