Samþykktir

Samþykktir fyrir Innheimtumiðstöð Rétthafa

1. Nafn og aðsetur

1.1. Samtökin heita Innheimtumiðstöð rétthafa, skammstafað IHM. Heimili miðstöðvarinnar og varnarþing er í Reykjavík.

2. Tilgangur og viðfangsefni

2.1. IHM eru samband rétthafasamtaka, þ.á.m. höfunda, listflytjenda og framleiðenda tón- og kvikmyndaverka, til hagsmuna- og réttargæslu í samræmi við tilgang IHM, sbr. gr. 2.2.1 hér að neðan.

2.2. Verkefni IHM skulu vera sem hér segir:

2.2.1. Innheimta, umsýsla og úthlutun fjármuna á grundvelli þeirra fjárhagslegu réttinda sem undir samþykktir þessar falla eða hafa verið framseld IHM með samkomulagi við aðra rétthafa en sem aðild eiga að IHM, nánar tiltekið er um eftirfarandi fjárhagsleg réttindi og málaflokka að ræða: a) Bætur vegna eftirgerðar verka til einkanota skv. 3. mgr. 11.gr. höfundalaga nr. 73/1972. b) Endurvarp á óbreyttu útvarps- og sjónvarpsefni til almennings um kapalkerfi samtímis hinni upphaflegu útsendingu sbr. 23. gr. a. í höfundalögum nr. 73/1972. c) Ólínulegt endurvarp útvarps- og sjónvarpsefnis til almennings, þ.m.t. vegna heimildar til að nálgast verndað efni á mismunandi tímum og með mismunandi móttökutækjum. d) Endurnot og endurútsendingar eldra efnis úr safni útvarpsstöðva sbr. 23. gr. b höfundalaga nr. 73/1972. e) Önnur innheimta og umsýsla fyrir aðildarfélög IHM og/eða aðra rétthafa, sem samtökunum hefur verið falið með sérstökum samningum þar að lútandi.

2.3. Á grundvelli þeirra réttinda og verkefna sem talin eru hér að framan í gr. 2.2, skal IHM samhæfa kröfur aðildarfélaga og gera samninga um hagnýtingu slíkra réttinda við notendur eftir því sem við á í hverju tilviki.

2.3.1. Gert er ráð fyrir að slíkir samningar séu að öllu jöfnu samningar sem fullnægi ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972 um samningskvaðaleyfi sem hefur í för með sér að notandi fær einnig rétt til þess að hagnýta önnur verk sömu tegundar þó að viðkomandi rétthafasamtök eða aðildarfélag komi ekki fram fyrir hönd höfunda þeirra verka.

2.3.2. Gert er ráð fyrir að IHM sæki um viðurkenningu ráðuneytis til gerðar samninga sem fullnægja ákvæðum höfundalaga nr. 73/1972 um samningskvaðaleyfi, eftir því sem við á.

2.3.3. Sé til að dreifa brotum á þeim réttindum sem tilgreind eru hér að framan og teljast á ábyrgð IHM er samtökunum heimilt ef þörf krefur að sækja viðkomandi aðila til saka vegna slíkra brota, hvort sem er með kæru til lögreglu eða með málsókn. IHM er einnig heimilt að taka þátt í heildarátaki eða sameiginlegum réttaraðgerðum rétthafa til að stemma stigu við brotum á hugverkarétti.

2.3.4. Annast samskipti og samstarf við hliðstæð samtök erlendra rétthafa.

2.3.5. Safna upplýsingum, framkvæma neyslukannanir og annað sem lýtur að upplýsingum sem tengjast rekstri IHM á hverjum tíma.

3. Aðild

3.1. Aðilar að samtökum þessum eru: STEF, SFH (Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda), Rithöfundasamband Íslands, Blaðamannafélag Íslands, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna, Samtök kvikmyndaleikstjóra, Félag leikstjóra á Íslandi, Hagþenkir (Félag höfunda fræðirita og kennslugagna), Myndstef og Félag leikskálda og handritshöfunda.

3.2. Önnur rétthafasamtök en þau, sem að framan eru greind, geta sótt um aðild að samtökunum enda hafi þau umboð til að gera samninga fyrir félagsmenn sína um réttindi og skyldur sem kveðið er á um í gr. 2.2.1 og fari jafnframt með slíkt umboð fyrir meirihluta allra rétthafa hér á landi fyrir einhver þeirra réttinda sem kveðið er á um í gr. 2.2.1. Með aðildarumsókn skulu fylgja gögn er staðfesta framangreint, þar með talið afrit af samþykktum viðkomandi rétthafasamtaka, samþykktum ársreikningum síðustu þriggja ára, félagaskrá og úthlutunarreglum auk greinargerðar um úthlutanir síðustu þriggja ára. Umsókn um aðild ásamt fylgigögnum skal berast stjórn fyrir 1. febrúar á umsóknarári. Aðalfundur fulltrúaráðs tekur ákvörðun um hvort umsókn um aðild verði samþykkt, sbr. gr. 4.5. Sé aðildarumsókn hafnað, skal ákvörðunin rökstudd. Aðild að IHM ein og sér hefur ekki í för með sér sjálfkrafa rétt til úthlutunar fjármuna IHM heldur fer slíkur réttur skv. 5. gr. samþykkta þessara.

3.3 Aðildarfélög veita IHM umboð til að fara með umsýslu réttinda samkvæmt skriflegu umboði. Umboðið nær til þeirrar umsýslu sem samþykktir IHM kveða á um á hverjum tíma og skal gilda þar til aðild viðkomandi aðildarfélags lýkur að IHM.

3.4 Úrsögn aðildarfélaga skal tilkynna skriflega með minnst sex mánaða fyrirvara. Slík úrsögn hefur þó ekki áhrif á gildandi samninga IHM.

4. Skipulag

4.1. Stjórn samtakanna skipa níu menn, tveir tilnefndir af STEFi, þrír af SFH, einn af Rithöfundasambandi Íslands, einn af Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda, einn af Samtökum kvikmyndaleikstjóra og einn af Myndstefi. Varamenn skulu vera jafnmargir aðalmönnum og tilnefndir á sama hátt. Stjórnin velur sér formann og varaformann. Tilnefning stjórnarmanna gildir í tvö ár.

4.2. Stjórn stýrir starfsemi samtakanna og hefur eftirlit með starfi og frammistöðu starfsmanna. Fundi skal halda með hæfilegum fyrirvara þegar formaður ákveður eða einn stjórnarmanna óskar þess. Fundargerðir stjórnarfunda skulu sendar til stjórnarmanna og einstakra aðildarsamtaka.

4.3. Hver stjórnarmaður hefur eitt atkvæði. Stjórnarfundur er lögmætur þegar formaður og fjórir meðstjórnendur sækja fund sjálfir eða varamenn þeirra.

4.4. Fulltrúaráð samtakanna skipa fulltrúar sem tilnefndir skulu til tveggja ára af aðildarsamtökunum sem hér segir: Tveir fulltrúar og tveir til vara, tilnefndir af STEFi. Fjórir fulltrúar og tveir til vara, tilnefndir af SFH. Tveir fulltrúar og einn til vara, tilnefndir af Rithöfundasambandi Íslands. Einn fulltrúi og einn til vara, tilnefndir af öðrum aðildarsamtökum, hverjum um sig. Stjórnarmenn samtakanna eiga og sæti í fulltrúaráði samtakanna og hafa þar atkvæðisrétt, málfrelsi og tillögurétt. Samtök, sem öðlast hafa aukaaðild að samtökunum, hafa og rétt til að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu á fundum fulltrúaráðsins án atkvæðisréttar. Ef skipting á tekjum samkvæmt grein 5.2. breytist skal endurskoða fjölda fulltrúa frá einstökum aðildarsamtökum í stjórn og fulltrúaráði.

4.5. Aðalviðfangsefni fulltrúaráðsins eru þessi. 1. Að ákveða í aðalatriðum störf og stefnu IHM. 2. Að hafa eftirlit með starfsemi hennar. 3. Að taka afstöðu til aðildar nýrra samtaka. Ákvörðun skv. 4.5.1 og 4.5.3 verður því aðeins tekin í fulltrúaráðinu að 3/4 greiði því atkvæði sitt.

4.6. Aðalfund fulltrúaráðsins skal halda eigi síðar en 30. maí ár hvert. Skal til hans boðað með ábyrgðarbréfum eða á annan sannanlegan hátt þar með talið með rafrænum hætti með tveggja vikna fyrirvara. Aðra fundi í fulltrúaráðinu skal boða á sama hátt. Á aðalfundi skal taka fyrir þessi mál:

1. Skýrslu stjórnar, þ.m.t. skýrslu um framkvæmd eftirlits, sbr. gr. 4.2. 2. Afgreiðslu endurskoðaðra reikninga. 3. Kosningu formanns fulltrúaráðsins. 4. Skýrt frá tilnefningu stjórnar og varamanna sbr. 4.1. , sem og endurskoðun á frammistöðu og staðfestingu launa og annarra starfskjara. 5. Kosningu tveggja félagskjörinna skoðunarmanna og eins löggilts endurskoðenda eða endurskoðendafirma. 6. Almenna stefnu um úthlutun réttindagreiðslna til rétthafa. 7. Almenna fjárfestingastefnu. 8. Almenna stefnu um frádrátt frá réttindatekjum og arðs af fjárfestingu þeirra. 9. Notkun óráðstafanlegra fjárhæða. 10. Áhættustýringarstefnu
11. Samþykkt árlegrar gagnsæisskýrslu. 12. Önnur mál.

Fulltrúaráðið kemur annars saman þegar stjórnin, endurskoðendur eða a.m.k. eitt aðildarsamband óskar þess. Geta skal dagskrár í fundarboði. Tillögur til aðalfundar skulu berast stjórn eigi síðar en 15. maí ár hvert.

4.7. Fundinum stjórnar formaður fulltrúaráðsins. Ekki verður ályktað um mál, sem ekki er getið í fundarboði. Ákvarðanir skulu teknar með meirihluta atkvæða, sé annað ekki sérstaklega ákveðið.

4.8. Reynist ekki unnt að ljúka aðalfundarstörfum eða einhverjar aðrar ástæður leiða til þess að boða þurfi til framhaldsaðalfundar eða aukaaðalfundar annast stjórn slíka fundarboðun með sama hætti og gildir um boðun aðalfunda, hafi boðun ekki átt sér stað á aðalfundi.

4.9. Heimilt er stjórn að ráða framkvæmdastjóra eða framkvæmdastjórn sem fer með daglega stjórn samtakanna. Í framkvæmdastjórn skulu sitja þrír fulltrúar, formaður, varaformaður auk stjórnarmanns sem stjórn skipar.

4.10 Aðilar að IHM skulu taka saman gagnsæisskýrslu, sbr. ákvæði 23. gr. laga nr. 88/2019 og skila til IHM árlega.

5. Meðferð fjármála og gagnsæisskýrsla

5.1. Til að mæta óvæntum kröfum aðila, sem standa utan IHM, og kostnaði IHM, öðrum en rekstrarkostnaði, skal árlega leggja í varasjóð 5% af heildartekjum IHM hvers rekstrarárs. Þegar höfuðstóll sjóðsins er orðinn kr. 10.000.000,- falla greiðslur til hans niður. Fjárhæð þessi skal endurskoðuð árlega miðað við verðlagsþróun og skal koma fram í árseikningi samtakanna. Sé gengið á höfuðstólinn skulu greiðslur til hans hefjast að nýju skv. sömu reglum.

5.2. Eftir að greitt hefur verið til varasjóðs skv. 5.1. og fé lagt til hliðar til greiðslu rekstrarkostnaðar skal skipta rekstrarafgangi samtakanna á milli aðildarsamtakanna. Aðildarsamtökin skulu koma sér saman um skiptingu úthlutunar með samhljóða ákvörðun á aðalfundi fulltrúaráðs.

Samkomulag aðila um skiptingu, sátt eða niðurstaða gerðardóms um skiptingu, skal gilda í þrjú ár hið minnsta. Að því tímabili loknu skal félagið framkvæma könnun á umfangi eintakagerðar til einkanota, enda hafi eitthvert aðildarfélag óskað þess. Þegar niðurstaða slíkrar könnunar liggur fyrir, skal heimilt að endurskoða gildandi skiptingu á milli aðildarsamtakanna ef eitthvert þeirra krefst þess. Skal krafa þess efnis vera gerð með þriggja mánaða fyrirvara. Náist ekki samkomulag um breytingu á skiptingunni skal skera úr ágreiningnum skv. 6.1 – 6.4.

Hver aðildarsamtök skulu ráðstafa sínum hluta til rétthafa sinna með einstaklingsbundnum úthlutunum þar sem því verður við komið og samkvæmt þeim reglum sem eru í gildi um úthlutun í hverju þeirra fyrir sig. Skulu aðilar að IHM því sjálfir annast úthlutanir og útborganir réttindagreiðslna til rétthafa, sbr. ákvæði 24. gr. laga nr. 88/2019.

5.3. Aðilar að IHM skulu taka saman árlega gagnsæisskýrslu, sbr. ákvæði 23. gr. laga nr. 88/2019 og skila til IHM árlega.

5.4. Með móttöku greiðslna frá IHM undirgangast aðildarfélög kröfur sem gerðar eru skv. lögum um sameiginlega umsýslu höfundaréttar nr. 88/2019. Í kröfunum felst m.a. samning gagnsæisskýrslu til samræmis við 23. gr. laganna, sbr. viðauka með lögunum og skylda til birtingar hennar að samþykkt lokinni á aðalfundi. Aðildarfélög skulu jafnframt uppfylla kröfur skv. III. kafla laganna, um umsýslu réttindatekna, 4. mgr. 18. gr. um úthlutun innan sex mánaða, 1.-6. tl. 5. mgr. 6. gr. um möguleika rétthafa til að samþykkja meðferð innheimtra fjármuna og 3. mgr. 19. gr. um að gera upplýsingar um úthlutun, aðgengilegar rétthöfum að lágmarki árlega. Þá eiga ákvæði 36. gr. laganna einnig við um eftirlit ráðuneytisins sem fer með málefni höfundaréttar og viðurlög skv. 37. gr. IHM ber skylda til að birta umræddar skýrslur á vef sínum einnig. Vegna þess er gerð sú krafa á aðildarfélögin að senda IHM gagnsæisskýrslur innan mánaðar frá samþykkt þeirra á aðalfundi viðkomandi aðildafélags, en þó aldrei síðar en 1. ágúst ár hvert. Berist skýrslur ekki innan þessara tímamarka er IHM heimilt að halda eftir úthlutun þar til skýrsla berst.

6. Réttindi utanfélagsmanna

6.1 Hafi IHM samið um endurnot og endurútsendingar eldra efnis úr safni útvarpsstöðva sbr. 23. gr. b höfundalaga nr. 73/1972, kann rétthöfum sem ekki eru aðilar að IHM eða aðildarfélögum þess engu að síður að vera heimilt að banna hagnýtingu verka sinna. Þeim aðilum er unnt að koma kröfum þess efnis á framfæri við IHM, enda sé slíkum kröfum komið á framfæri með skriflegum hætti.

6.2 Þeir rétthafar sem ekki eru aðilar að neinum aðildarsamtökum, skulu einungis eiga kröfu á þau aðildarsamtök sem þeir ættu kost á að vera aðilar að samkvæmt ákvæðum 26. gr. b í höfundalögum nr. 72/1973. Tekjum samtakanna vegna mismunandi verkefna þess skal haldið skýrt aðgreindum í bókhaldi samtakanna og haldið aðskildum gagnvart öðrum fjármunum samtakanna. Heimilt er stjórn að skipta rekstri samtakanna í sjálfstæðar rekstrareiningar eftir starfs- eða verkefnasviðum. Verkefni slíkra sviða skulu skýrt skilgreind og mega ekki skarast. Skal fjárhagur aðskilinn fyrir hverja rekstrareiningu fyrir sig og hlutdeild í kostnaði heildarsamtaka og rekstri hvers rekstrarsviðs skýrt afmörkuð.

7. Úrlausn ágreiningsmála

7.1. Ef ekki næst samkomulag um skiptingu tekna milli aðildarsamtaka eða ágreiningur ríkir milli þeirra um meðferð fjár IHM að öðru leyti skal sérstökum sáttasemjara falið að leita sátta milli aðildarsamtakanna. Skal hann skipaður af stjórn IHM hverju sinni og vera óháður aðildarsamtökunum. Ef ekki nást sættir innan þriggja mánaða frá því að sáttasemjarinn tók til starfa skal hann leggja fram málamiðlunartillögu um skiptingu tekna eða meðferð fjár. Ef málamiðlunartillagan er samþykkt af 2/3 atkvæða á fulltrúaráðsfundi telst hún skuldbindandi fyrir öll samtökin, sbr. þó 7.3. Samþykkt málamiðlunartillaga skal að lágmarki gilda í þrjú ár. Að öðrum kosti skal vísa ágreiningnum til úrlausnar gerðardóms skv. 7.2. Kostnaður af störfum sáttasemjara skal greiddur af IHM.

7.2. Gerðardómur leysir endanlega úr ágreiningi um skiptingu tekna milli aðildarsamtaka og um meðferð fjár IHM að öðru leyti. Skal gerðardómurinn skipaður þremur dómendum. Ef aðildarsamtökin koma sér ekki saman um gerðarmenn skulu þeir skipaðir af dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur. Að öðru leyti gilda ákvæði laga um samningsbundna gerðardóma nr. 53/1989 um gerðardóminn og málsmeðferð fyrir honum. Kostnaður af gerðardóminum skal greiddur af IHM, sbr. þó 7.3., en hvert aðildarfélag ber sinn kostnað af málsmeðferð fyrir gerðardómi.

7.3. Nú sætta einhver aðildarsamtök sig ekki við málamiðlunartillögu sáttasemjara, þótt hún hafi verið samþykkt skv. 7.1., og geta þau þá vísað ágreiningnum til úrlausnar gerðardóms skv. 7.2, enda sé slík krafa sett fram innan þriggja mánaða frá því að málamiðlunartillaga er samþykkt. Víki gerðardómurinn frá tillögunni, þannig að úrskurður hans verði hagstæðari þessum aðildarsamtökum, skal kostnaður af gerðardóminum greiddur af [öðrum aðildarsamtökum] IHM. Að öðrum kosti skulu þau aðildarsamtök, sem vísuðu ágreiningnum til gerðardóms, bera kostnað af honum. Niðurstaða gerðardóms skal að lágmarki gilda í þrjú ár.

7.4. Um ágreining milli aðildarfélaganna eða milli aðildarfélaganna og IHM um önnur málefni en að ofan greinir fer samkvæmt reglum félagsins um meðferð ágreiningsmála.

7.5 Berist IHM skrifleg kvörtun frá aðildarfélagi er varða réttindi þess innan IHM, skal slíkri kvörtun svarað skriflega innan tveggja mánaða. Sé viðkomandi aðildarfélag ósátt við afgreiðslu erindis skal aðildarfélaginu heimilt að skjóta ágreiningsefninu til þriggja manna úrskurðarnefndar sem skipuð skal af stjórn. Allar ákvarðanir úrskurðarnefndar skulu vera skriflegar og rökstuddar og tilkynntar tímanlega þeim aðila sem bar fram kvörtun. Grein þessi nær þó ekki til ágreinings er varðar tekjuskiptingu og fjallað er um í greinum 7.1 – 7.4.

8. Breytingar á samþykktum. Félagsslit.

8.1. Til breytinga á samþykktum þarf meirihluta, 3/4 hluta atkvæða á fulltrúaráðsfundi, þar sem að minnsta kosti 4/5 hlutar aðildarfélaganna eru mættir.

8.2. Fulltrúaráð skal slíta IHM ef þess er krafist af 3/4 hlutum aðildarfélaganna. Við félagsslit ákveður mennta- og menningarmálaráðuneytið hvernig ráðstafa skal eignum IHM til hagsbóta fyrir rétthafa.

Samþykkt á aðalfundi fulltrúaráðs IHM þann 28. júní 2023