Heildarleyfissamningar
Heildarleyfissamningur er stundum kallaður samningskvaðaleyfi (e. Extended Collective Licensing). Þessi gerð samninga er einkum þekkt á Norðurlöndum og byggir á sömu hugsun og lágmarkslaun kjarasamninga sem binda bæði atvinnurekendur og launamenn burtséð frá aðild þeirra að stéttarfélögum og samtökum atvinnurekenda. Kerfið byggist á því að viðurkenndum innheimtusamtökum rétthafa er fengið umboð skv. lögum og samþykktum til að innheimta endurgjald vegna notkunar á höfundaréttarvörðu efni. Umboð samtakanna til innheimtu nær til allra rétthafa, óháð því hvort þeir hafa gengið í rétthafasamtökin eða ekki og eru þeir því allir bundnir af því endurgjaldi sem rétthafasamtökin semja um.
Allir rétthafar geta þó bannað notkun á eigin efni skv. heildarleyfissamningum. Þeir sem standa utan samtakanna eiga sama rétt og innanfélagsmenn til greiðslna, eigi þeir réttmæta kröfu fyrir notkun og geta sýnt fram á notkunina.
IHM nýtur viðurkenningar Menningar- og viðskiptaráðuneytisins til að gera samningskvaðasamninga á grundvelli 23. gr., 23. gr. a. og 23. gr. b. höfundalaga nr. 73/1972.